top of page

Hér má finna þau hæfniviðmið úr Aðalnámskrá grunnskóla sem koma að kennslu í kynheilbrigði og réttindum einstaklinga. 

Efst má finna hæfniviðmið við lok 4. bekkjar, síðan lok 7. bekkjar og neðst eru hæfniviðmið við lok 10. bekkjar. 

Yngsta stig

Við lok 4. bekkjar getur nemandi...

Skólaíþróttir 

  • unnið með þær tilfinningar sem fylgja því að vinna og tapa leikjum.

  • gert sér grein fyrir eigin líkamsvitund og einkastöðum líkamans.

  • útskýrt líkamlegan mun á kynjum.

Samfélagsgreinar 

Reynsluheimur

  • borið kennsl á gildi, svo sem virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhyggju og sáttfýsi.

Hugarheimur

  • sagt frá sjálfum sér með hliðsjón af búsetu, uppruna, fjölskyldu, siðum og venjum.

  • bent á gildi jákvæðra viðhorfa og gilda fyrir sjálfan sig.

  • bent á dæmi um hefðbundin kynhlutverk og breytingar á þeim.

  • gert sér grein fyrir hvar styrkur hans liggur.

  • áttað sig á og lýst ýmsum tilfinningum, svo sem gleði, sorg og reiði.

  • gert sér grein fyrir að í umhverfinu eru margvísleg áreiti, jákvæð og neikvæð, sem hafa áhrif á líf hans.

  • gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna.

  • sett sig í spor annarra jafnaldra.

​Félagsheimur

  • tekið þátt í samstarfi og samræðu í jafningjahópi.

  • áttað sig á að fólk býr við ólík fjölskylduform, hefur ólíkan bakgrunn og ber virðingu fyrir mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum.

  • hlustað á og greint að ólíkar skoðanir.

  • rætt um valin samfélagsleg og siðferðileg málefni.

  • rætt um réttindi sín og skyldur í nærsamfélaginu og sýnt ábyrgð í samskiptum við aðra og þekki til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

  • tjáð þekkingu sína og viðhorf með ýmsum hætti.

  • áttað sig á gildi jafnréttis í daglegum samskiptum.

  • sýnt tillitssemi og virðingu í samskiptum og samvinnu við aðra.

  • sýnt að hann virðir reglur í samskiptum fólks, skráðar og óskráðar, og nefnt dæmi um slíkar reglur.

  • sýnt tillitssemi og umhyggju í leik og starfi.

Náttúrugreinar 

  • hlustað á og rætt hugmyndir annarra.

  • útskýrt á einfaldan hátt hvernig barn verður til og þekkir einkastaði líkamans.

Miðstig

Við lok 7. bekkjar getur nemandi...

Skólaíþróttir 

  • sýnt virðingu og góða framkomu hvort sem leikur vinnst eða tapast. Jafnframt viðhaft jákvæð og árangursrík samskipti til að efla liðsanda.

  • rætt líkamsvitund, kynheilbrigði, staðalímyndir í íþróttaumfjöllun og tekið virka afstöðu gegn ofbeldi.

  • útskýrt misjafnan líkamlegan þroska einstaklinga og kynja.

Samfélagsgreinar 

Reynsluheimur

  • sýnt fram á skilning á mikilvægum gildum, svo sem kærleika, mannhelgi, félagslegu réttlæti, umhyggju fyrir öðrum mönnum og öllu lífi.

Hugarheimur

  • lýst sjálfum sér og tekið dæmi um þætti sem hafa áhrif á sjálfsmynd hans, svo sem úr nærsamfélagi, umhverfi og menningu.

  • lýst með dæmum gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats fyrir eigin sjálfsvitund.

  • áttað sig á ólíkum kynhlutverkum á nokkrum sviðum og hvernig þau mótast og breytast.

  • gert sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum.

  • vegið og metið áhrif fyrirmynda og staðalmynda, hvernig vinna megi með þau á sjálfstæðan og uppbyggjandi hátt.

  • lýst margvíslegum tilfinningum og áttað sig á, áhrifum þeirra á hugsun og hegðun.

  • metið jákvæð og neikvæð áhrif ýmissa áreita í umhverfinu á líf hans og tekið gagnrýna afstöðu til þeirra.

  • gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og rætt þýðingu þess.

  • sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum.

​Félagsheimur

  • borið kennsl á ólíkan bakgrunn fólks og virt frelsi þess til mismunandi trúar, lífsgilda, skoðana og lífshátta.

  • metið og brugðist við ólíkum skoðunum og upplýsingum á fordómalausan hátt.

  • rökrætt um ólík málefni af samfélagslegum og siðferðilegum toga.

  • tekið þátt í samræðu um stöðu sína sem þátttakandi í samfélaginu, réttindi og skyldur, sýnt ábyrgð í samskiptum og átti sig á réttindum sínum samkvæmt alþjóðasáttmálum.

  • nefnt dæmi um gildi jafnréttis og mannréttinda í samfélaginu og rætt áhrif staðalímynda.

  • sýnt sanngirni, sjálfstraust og virðingu í samskiptum og samvinnu við aðra.

  • rætt reglur í samskiptum fólks og tekið þátt í að setja sameiginlegar leikreglur með öðrum.

Náttúrugreinar 

  • hlustað á, metið og rætt hugmyndir annarra.

  • lýst breytingum sem verða við kynþroskaaldur og gert sér grein fyrir mikilvægi gagnkvæmrar virðingar í samskiptum kynjanna.

Unglingastig

Við lok 10. bekkjar getur nemandi...

Skólaíþróttir 

  • skilið mikilvægi virðingar og góðrar framkomu til að efla liðsandann og skilið mikilvægi góðrar ástundunar, sjálfsaga, sjálfstæðra vinnubragða, samvinnu og tillitsemi í tengslum við góðan árangur í íþróttum.

  • rökrætt kynheilbrigði, kyn- og staðalímyndir, afleiðingar eineltis og tekið virka afstöðu gegn ofbeldi.

  • rætt eigin ábyrgð á líkamlegu og andlegu heilbrigði bæði sínu eigin og annarra.

Samfélagsgreinar 

Reynsluheimur

  • sýnt fram á skilning á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum, félagslegu réttlæti, jöfnuði og helgi mannlegs lífs.

  • útskýrt margbreytileika trúarbragða og lífsviðhorfa og greint áhrif þeirra á líf einstaklinga, hópa og samfélaga.

Hugarheimur

  • hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra, útskýrt hvernig sjálfsmynd hans mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum.

  • rökstutt gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats, sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund.

  • beitt hugtökunum kyn, kynhneigð og kynhlutverk og útskýrt hvaða hlutverki þau þjóna í kyngervi einstaklinga og sjálfsmynd.

  • gert sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum og tekið ákvarðanir á grunni þeirrar sjálfsþekkingar.

  • vegið og metið áhrif fyrirmynda og staðalmynda á mótun sjálfsmyndar og hefur áræði til að móta eigin ímynd, lífsstíl og lífsskoðun á sjálfstæðan og ábyrgan hátt.

  • lýst margbreytileika tilfinninga og bent á víxlverkun tilfinninga, hugsunar, hegðunar og samskipta.

  • sýnt styrk til að bera ábyrgð á eigin lífi, lífsháttum og heilbrigði,

  • greint jákvæð og neikvæð áreiti og staðist þrýsting, sem stefnir heilsu og velferð fólks í voða.

  • gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og útskýrt fyrir öðru fólki mikilvægi þess.

  • sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum.

​Félagsheimur

  • útskýrt með dæmum margbreytileika mannlífsins og ólíkan bakgrunn fólks, borið virðingu fyrir frelsi fólks til mismunandi trúar, lífsgilda, skoðana og lífshátta.

  • vegið og metið skoðanir og upplýsingar, brugðist við þeim á fordómalausan og réttsýnan hátt.

  • fengist við samfélagsleg og siðferðileg málefni af mismunandi sjónarhólum.

  • rökrætt stöðu sína sem þátttakandi í samfélaginu, réttindi, skyldur og gildismat, sýnt ábyrgð í samskiptum, umgengni og lífsháttum, m.a. með vísan til réttinda samkvæmt alþjóðasáttmálum.

  • rökrætt gildi jafnréttis og mannréttinda á öllum sviðum samfélagsins og þekki almenn ákvæði um mannréttindi.

  • sýnt sjálfsaga, sjálfstraust og virðingu í margvíslegum samskiptum og samstarfi við ólíka einstaklinga.

  • ígrundað eigin getu til aðgerða og gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna eða aðgerðaleysis.

  • útskýrt gildi reglna í samskiptum fólks í fjölskyldu, vinahópi og þjóðfélaginu í heild og tekið þátt í að móta slíkar reglur.

Náttúrugreinar 

  • útskýrt hvernig einstaklingur getur stuðlað að eigin velferð með ábyrgri neyslu og hegðun.

  • útskýrt hvað einkennir lífsskilyrði manna og hvað felst í því að taka ábyrgð á eigin heilsu.

  • útskýrt hvernig fóstur verður til og þroskast, hvað felst í ábyrgri kynhegðun og rætt eigin ábyrgð á líkamlegu og andlegu heilbrigði, bæði sín og annarra.

bottom of page